Thursday, November 19, 2009

Margmiðlunarskólinn

Áfangar á 1.– 3. önn eru hugsaðir sem áfangabekkjarkerfi, þ.e. að nemendur fylgist að á önnunum. Á fyrstu til þriðju önn eru teknir fjórir fimm eininga áfangar á önn. Kennt er mánudaga til fimmtudaga kl. 8:10-11:55 og kl. 12:35-16:00. Föstudagar eru vinnudagar, þar sem ætlast er til að nemendur vinni í sínum verkefnum.
Á fjórðu önn er tekinn einn 20 eininga áfangi, vinnustofa útskriftarverkefnis þar sem krafist er sjálfstæðrar verkefnavinnu af nemendum á því sviði sem þeir hafa mestan áhuga. Ekki er formleg kennsla á fjórðu önn en ætlast er til að nemendur hafi viðveru í skólanum alla virka daga kl. 8:10-16:00. Í boði eru fyrirlestrar frá kennurum, fræðimönnum, tæknimönnum og fyrirtækjum. Einnig vinnur umsjónarkennari með hverjum nemenda og eru formlegir fundir einu sinni í viku. Auk þess skila nemendur reglulega verkefnum á vinnuvef, sem lýsa framvindu útskriftarverkefnis reglulega og halda reglulegar kynningar þar sem allir leiðsagnarkennarar og nemendur hittast.
Áfangar sem kenndir eru bera heitin
ZHO = Hönnun
ZMF = Margmiðlunarfræði
ZVF = Vefsmíðar og margmiðlun
ZHM = Hreyfimyndagerð
Allir áfangar á fyrstu önn bera númerið 105, allir áfangar á annarri önn bera númerið 205 og áfangar á þriðju önn bera númerin 305 og 315. Áfangi fjórðu annar ber númerið 420.
Nemendum Margmiðlunarskólans stendur til boða að taka áfanga í íþróttum með námi sínu í margmiðlun.
Í lok fjórðu annar eða 80 tilskilinna eininga, útskrifast nemandi með burtfararskírteini sem vottar að hann hefur lokið margmiðlunarnámi.

Staða nemanda að loknu námi
Að loknu námi í margmiðlun útskrifast nemandinn með formlegum hætti og fær útgefið burtfararskírteini þar sem námslok eru vottuð og tilgreindir þeir námsáfangar sem hann hefur lokið og með hvaða árangri.

Að útskrift lokinni eiga nemendur m.a. að geta ráðið sig í störf við vefsmíði, hreyfimyndagerð, þrívíddarhönnun, kynningarefnisgerð, auglýsingagerð, kvikmyndagerð, eftirvinnslu kvikmynda og fleira. Námið sem boðið er upp á spannar mikla breidd og kemur inn á starfsvið sem eru enn í mótun í þjóðfélaginu. Erfitt er því að festa hendur á eitthvað eitt starf sem nemandi með margmiðlunarnám getur starfað við. Stefnt er að því að nemandinn: búi yfir nægri kunnáttu til að koma inn á starfsvettvanginn, geti haslað sér þar völl og haldið áfram að sérhæfa sig í starfi. Reynslan sýnir að nemendur hafa að loknu námi, unnið að klippingu og eftirvinnslu kvikmynda, gerð sjónvarpsauglýsinga og unnið að gerð þrívíddar bæði í kvikmyndum og auglýsingum. Auk þess hafa nemendur ráðið sig til stærri fyrirtækja og tekið að sér vinnu í kynningardeildum og m.a. unnið að gerð margmiðlunarefnis. Nemendur geta stofnað sín eigin fyrirtæki sem m.a. taka að sér vefhönnun og gerð kynningarefnis bæði fyrir prent- og skjámiðla og fleira.

Í náminu er lögð mikil áhersla á hugmyndavinnu, frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð sem jafnframt því að læra að nýta sér nýja tækni, getur auðveldlega leitt til nýrra hugmynda og nýsköpunar í þjóðfélaginu. Skólinn leggur áherslu á að útskrifa nemendur með frjóa hugsun og vilja til að fara nýjar leiðir.

Nemendur hafa farið erlendis í áframhaldandi nám á þessu sviði og þá til frekari sérhæfingar. Á grundvelli náms í Margmiðlunarskólanum hafa þeir fengið inngöngu í virta háskóla sem gera miklar kröfur.

Monday, November 16, 2009

Ýmis störf

Auglýsingagerð
Hvernig er best að byggja upp atvinnuauglýsingu?
Við gerð atvinnuauglýsingar er mikilvægt að fram komi sem nákvæmastar upplýsingar um tegund fyrirtækis, stærð og staðsetningu, starfssvið viðkomandi, vinnutíma og hvenær viðkomandi þarf að hefja störf eða starfstíma ef um tímabundið starf er að ræða. Þá þurfa að vera greinargóðar upplýsingar um hæfniskröfur og skilyrði s.s. aldur, menntun, reynslu og annað. Best er að byggja upp atvinnuauglýsingu samkvæmt neðantöldum liðum.
Fyrirsögn sem vekur áhuga.
Tegund, stærð og staðsetning fyrirtækis.
Starfsheiti ásamt stuttri starfslýsingu.
Hvers konar starf: hluta-, sumar-, tímabundið eða framtíðarstarf.
Vinnutími og ráðningartími ef um tímabundið starf er að ræða.
Hvenær viðkomandi á að hefja störf.
Hæfniskröfur: menntun, reynsla, og þekking.
Skilyrði: aldur og eiginleikar.

Ljósmyndun er aðferð til að festa á varanlegt form myndir af umhverfinu með ljósmyndavél. Notast er við vélræna, ljósfræðilega, efnafræðilega og/eða stafræna aðferð við að safna endurköstuðu ljósi í stuttan tíma með linsu og varpa því á ljósnæman flöt, t.d. filmu inni í myndavélinni. Með eftirvinnslu á ljósnæma fleti myndavélarinnar (framköllun á filmu) fæst ljósmynd sem „tekin“ var með myndavélinni. Orðið ljósmyndun er samsett úr orðunum ljós og sögninni mynda og felst merkingin í því að búin er til mynd af ljósinu.
Nútíma ljósmyndatækni má rekja til franska uppfinningamannsins Joseph Nicéphore Niépce en hann hóf að gera tilraunir árið 1793 með aðferðir til að gera sjónrænar myndir.

Grafísk hönnun er myndlist sem einbeitir sér að sjónsamskiptum og útliti, og þeim störfum tengdum henni. Ýmsir aðferðir eru notaðir til að skapa og sameina tákn, myndir og/eða orð til þess að skapa sjónframsetningu hugmynda og tilkynninga. Grafískir hönnuðir geta notað prentlista-, myndlista- og síðuskipulagstækni til að framleiða verk. Grafísk hönnun bendir á bæði framleiðsluaðferð og útkómur aðferðarinnar.
Grafísk hönnun er notuð í tímaritum, auglýsingum, umbúðum og vefhönnun. Til dæmis geta varaumbúðir hafa myndmerki eða annað listaverk, skipulagðan texta og hönnunarefni eins og laganir og liti sem sameina verkið. Samsetning er einn mikilvægasti eiginleiki í grafískri hönnun, sérstaklega þegar notuð eru margvísleg frumefni.

Upplýsingatækni


Upplýsingatækni (UT eða UTN) er sú aðferð að velja sem besta tækni til að vinna með gögn.
Með þessari skilgreiningu er hægt að segja að upplýsingatækni hafi verið til síðan að maðurinn fór að geyma gögn. Í dag er þó aðalega átt við rafræn samskipti og geymslu á gögnum, til þess eru notaðar tölvur og annar rafrænn búnaður.


Upplýsingatækni (e. information technology) nær yfir vítt svið. Almennt er talað um upplýsingatækni sem það að beita viðeigandi tækni við gagnavinnslu. Með tækni er átt við tölvutækni, fjarskiptatækni og rafeindatækni. Upplýsingatækni er notuð í viðskipta­lífinu, í iðnaði, í skólastarfi, við fjarnám, á heimilum, í stórmörkuðum og á bókasöfnum og upplýsingamiðstöðvum svo eitthvað sé nefnt.
Upplýsingatæknin er grundvöllur upplýsingaþjóðfélagsins, tækni sem gerir fjarskipti og hraðvirka miðlun þekkingar og upplýsinga mögulega. Upplýsingatækni er ekki inntak eða markmið í sjálfu sér heldur forsendan og afar mikilvægt er að huga að því að innihald og gæði upplýsinga séu eins og best verður á kosið hverju sinni