Áfangar á 1.– 3. önn eru hugsaðir sem áfangabekkjarkerfi, þ.e. að nemendur fylgist að á önnunum. Á fyrstu til þriðju önn eru teknir fjórir fimm eininga áfangar á önn. Kennt er mánudaga til fimmtudaga kl. 8:10-11:55 og kl. 12:35-16:00. Föstudagar eru vinnudagar, þar sem ætlast er til að nemendur vinni í sínum verkefnum.
Á fjórðu önn er tekinn einn 20 eininga áfangi, vinnustofa útskriftarverkefnis þar sem krafist er sjálfstæðrar verkefnavinnu af nemendum á því sviði sem þeir hafa mestan áhuga. Ekki er formleg kennsla á fjórðu önn en ætlast er til að nemendur hafi viðveru í skólanum alla virka daga kl. 8:10-16:00. Í boði eru fyrirlestrar frá kennurum, fræðimönnum, tæknimönnum og fyrirtækjum. Einnig vinnur umsjónarkennari með hverjum nemenda og eru formlegir fundir einu sinni í viku. Auk þess skila nemendur reglulega verkefnum á vinnuvef, sem lýsa framvindu útskriftarverkefnis reglulega og halda reglulegar kynningar þar sem allir leiðsagnarkennarar og nemendur hittast.
Áfangar sem kenndir eru bera heitin
ZHO = Hönnun
ZMF = Margmiðlunarfræði
ZVF = Vefsmíðar og margmiðlun
ZHM = Hreyfimyndagerð
Allir áfangar á fyrstu önn bera númerið 105, allir áfangar á annarri önn bera númerið 205 og áfangar á þriðju önn bera númerin 305 og 315. Áfangi fjórðu annar ber númerið 420.
Nemendum Margmiðlunarskólans stendur til boða að taka áfanga í íþróttum með námi sínu í margmiðlun.
Í lok fjórðu annar eða 80 tilskilinna eininga, útskrifast nemandi með burtfararskírteini sem vottar að hann hefur lokið margmiðlunarnámi.
Staða nemanda að loknu námi
Að loknu námi í margmiðlun útskrifast nemandinn með formlegum hætti og fær útgefið burtfararskírteini þar sem námslok eru vottuð og tilgreindir þeir námsáfangar sem hann hefur lokið og með hvaða árangri.
Að útskrift lokinni eiga nemendur m.a. að geta ráðið sig í störf við vefsmíði, hreyfimyndagerð, þrívíddarhönnun, kynningarefnisgerð, auglýsingagerð, kvikmyndagerð, eftirvinnslu kvikmynda og fleira. Námið sem boðið er upp á spannar mikla breidd og kemur inn á starfsvið sem eru enn í mótun í þjóðfélaginu. Erfitt er því að festa hendur á eitthvað eitt starf sem nemandi með margmiðlunarnám getur starfað við. Stefnt er að því að nemandinn: búi yfir nægri kunnáttu til að koma inn á starfsvettvanginn, geti haslað sér þar völl og haldið áfram að sérhæfa sig í starfi. Reynslan sýnir að nemendur hafa að loknu námi, unnið að klippingu og eftirvinnslu kvikmynda, gerð sjónvarpsauglýsinga og unnið að gerð þrívíddar bæði í kvikmyndum og auglýsingum. Auk þess hafa nemendur ráðið sig til stærri fyrirtækja og tekið að sér vinnu í kynningardeildum og m.a. unnið að gerð margmiðlunarefnis. Nemendur geta stofnað sín eigin fyrirtæki sem m.a. taka að sér vefhönnun og gerð kynningarefnis bæði fyrir prent- og skjámiðla og fleira.
Í náminu er lögð mikil áhersla á hugmyndavinnu, frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð sem jafnframt því að læra að nýta sér nýja tækni, getur auðveldlega leitt til nýrra hugmynda og nýsköpunar í þjóðfélaginu. Skólinn leggur áherslu á að útskrifa nemendur með frjóa hugsun og vilja til að fara nýjar leiðir.
Nemendur hafa farið erlendis í áframhaldandi nám á þessu sviði og þá til frekari sérhæfingar. Á grundvelli náms í Margmiðlunarskólanum hafa þeir fengið inngöngu í virta háskóla sem gera miklar kröfur.
Thursday, November 19, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment